Föstudaginn 21. október s.l. var starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða boðað til vinnufundar vegna mikils niðurskurðar á fjárframlögum til heilbrigðismála á norðanverðum Vestfjörðum á næsta ári.

Til fundarins mættu nálægt 80 starfsmenn og var það vel yfir væntingum. Þeim var skipt niður í 5 hópa sem náðu til allra deilda og starfssvæða stofnunarinnar. Verkefni hópanna var að ræða og svara fjölda spurninga um mögulega hagræðingu, sparnað og niðurskurð á viðkomandi deildum.
Að umræðum loknum gat hver og einn meðlimur í hópunum  svarað fyrirliggjandi spurningum fyrir sig og lagt tillögur sínar nafnlaust í miðabunkann sem var afrakstur fundarins. Allar tillögurnar fara síðan til frekari skoðunar hjá framkvæmdastjórn HV.
Á þennan hátt geta starfsmenn átt beinan þátt í því, með hvaða ráðum hægt verður að mæta þessum niðurskurði. Að sama skapi fær framkvæmdastjórnin mun fleiri sjónarhorn á þá möguleika sem fyrir hendi eru til sparnaðar.
Þar sem hóparnir höfðu ekki tækifæri til að sjá spurningarnar sem hinir hóparnir glímdu við, þá verða spurningar allra hópanna hengdar upp öllum til sýnis og geta starfsmenn glímt við þær og sett tillögur sínar nafnlausar í sérstakan kassa.


Höf.:HH