Þann 17. ágúst s.l. var kynntur og undirritaður í húsakynnum stofnunarinnar ?Samningur um tilraunaverkefni um hugræna atferlismeðferð á heilsugæslustöðvum?, milli Landspítala-háskólasjúkrahúss annars vegar og Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ, Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Heilsugæslunnar í Reykjavík hins vegar.

 

Voru samningarnir staðfestir af heilbrigðisráðherra, Jóni Kristjánssyni, sem var viðstaddur athöfnina. Undir samninginn rituðu Þröstur Óskarsson, framkvæmdastjóri, fyrir hönd HSÍ, Svava I. Sveinbjörnsdóttir, skrifstofustjóri, fyrir hönd HSA, Lúðvík Ólafsson, lækningaforstjóri, fyrir hönd HR og Magnús Pétursson, forstjóri LSH.

           

Samningurinn er í samræmi við þá stefnu ráðherra að efla sálfræðiþjónustu í grunnþjónustu heilsugæslunnar. Er hann gerður í tilraunaskyni og gildir hann í tvö ár og styrkir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið verkefnið með 24 milljóna króna framlagi á samningstímanum.

 

Markmið samningsins er að efla sérhæfða sálfræðiþjónustu innan heilsugæslunnar og fjölga úrræðum fyrir sjúklinga með geðraskanir. Þá er markmið samningsins að auka þekkingu heilbrigðisstarfsfólks heilsugæslunnar á heilbrigðisvanda af geðrænum toga annars vegar og hugrænni atferlismeðferð hins vegar, með fræðslufundum. Með samningnum er einnig ætlunin að styrkja samstarf á milli viðkomandi heilsugæslustöðva og geðsviðs Landspítala-háskólasjúkrahúss með það í huga að bæta þjónustu við geðsjúka og fyrirbyggja afleiðingar geðsjúkdóma, s.s. skerðingu á lífsgæðum og vinnugetu, einangrun, sjálfsvígstilraunir og sjálfsvíg.

 

Þjónustan sem Landspítali ? háskólasjúkrahús veitir er tvenns konar: Í fyrsta lagi tekur spítalinn að sér að veita sálfræðiþjónustu með hugrænni atferlismeðferð á heilsugæslustöðvum. Meðferðin felst í því að bjóða sjúklingum upp á hópmeðferð við kvíða og þunglyndi, með 15 til 25 sjúklinga í hópi, frá 1. september 2005. Í öðru lagi munu starfsmenn spítalans halda námskeið fyrir heilbrigðisstarfsmenn á heilsugæslustöðvunum um úrræði vegna heilbrigðisvanda af geðrænum toga og hugræna atferlismeðferð.

 

HSÍ væntir mikils af þessari þjónustu. Stofnunin hefur lengi boðið upp á margvíslega aðfengna sérfræðiþjónustu, til þægindaauka og sparnaðar fyrir notendur hennar. Samningurinn við Landspítala-háskólasjúkrahús eykur þar við og bætir úr afskaplega brýnni þörf fyrir viðkomandi einstaklinga að bæta heilsu sína og viðhalda góðri daglegri líðan.

 

Hægt er að fræðast um Atferlismeðferð við kvíða og þunglyndi hér:

Atferlismeðferð við kvíða og þunglyndi (60 Kb.)…


Höf.:HH