Um síðustu mánaðamót var sett í gang rafræn keyrsla hjá Landlækni sem leiðrétti skráningar einstaklinga á heilsugæslustöðvar. Allir Íslendingar eru skráðir á heilsugæslustöð í sínu umdæmi en dæmi hafa verið um að þeirri skráningu hafi verið áfátt og því var ráðist í að leiðrétta hana á landsvísu. Slík skráning er nauðsynleg því nú mun fjöldi skjólstæðinga hjá heilsugæslustöð verða tengd að nokkru leyti við framlög til hennar. Það er því mikilvægt að þessi skráning sé rétt.

Nú ætti þessi skráning að vera orðin nokkuð nærri lagi en þó þurfa allir að ganga úr skugga um að þeir séu skráðir á rétta heilsugæslustöð. Til að gera það þarf að fara á vefinn og inn á slóðina www.sjukra.is en það er vefur Sjúkratrygginga Íslands. Síðan þarf að skrá sig inn í Réttindagátt skjólstæðinga sem er að finna á forsíðunni. Til þess að geta skráð sig þar inn, þarf viðkomandi að hafa rafræn skilríki. Hér er slóð á leiðbeiningar um það hvort að fólk sé skráð á rétta heilsugæslu (í sínu umdæmi/nálægt lögheimili) og þá hvernig hægt er að breyta þeirri skráningu ef þarf.

Starfsfólk heilsugæslunnar á Ísafirði hefur nú þegar lagt mikla vinnu í að skrá einstaklinga á heilsugæslustöðvar í þeirra heimabæjarkjörnum en alltaf má gera betur. Við biðjum skjólstæðinga okkar því um að ganga úr skugga um þessa skráningu. Svo verður að minnast á það, að nú er sífellt algengara að upplýsingar um marga þá hluti sem að okkur snúa, þ.m.t. heilsu okkar, séu á rafrænu formi. Til að nálgast þær, t.d. þetta framangreinda og líka grunnupplýsingar úr sjúkraskrám okkar inni á www.heilsuvera.is svo eitthvað sé nefnt, verður fólk að hafa rafræn skilríki. Eru því allir hvattir til að verða sér úti um slík skilríki en það er t.d. hægt að gera í viðskiptabanka hvers og eins.


Höf.:SÞG