Frétt BB/Harpa:

Krabbameinsfélagið Sigurvon hefur afhent Heilbrigðisstofnun Vestfjarða fullbúið lyfjaherbergi sem ætlað er einstaklingum sem hafa fengið krabbamein. Með tilkomu herbergisins geta sjúklingar fengið megnið af sinni lyfjameðferð á heimaslóðum. Stuðningshópur Sigurvonar, Vinir í von, þar sem þær Heiðrún Björnsdóttir, fyrrum stjórnarmaður í Sigurvon og Guðbjörg Ólafsdóttir stjórnarmaður, eru í fararbroddi, hafa undanfarið ár unnið að því að innrétta herbergið og keypt ýmsa innanstokksmuni sem Heilbrigðisstofnunin hefur afnot af.

„Það hafa líka ýmsir velunnarar hjálpað okkur við verkefnið s.s. Betra bak á Ísafirði sem gaf okkur góðan afslátt af húsgögnum, Særaf sem gaf okkur góðan afslátt af sjónvarpi, hljómflutningstækjum og þráðlausum heyrnartækjum, Kómedíuleikhúsið sem gaf Þjóðlegar hljóðbækur, Marsibil Kristjánsdóttir listakona sem færði okkur listaverk eftir sig og Pjötlurnar sem gáfu okkur veggteppi. Við viljum koma á framfæri kærum þökkum til þeirra sem og annarra sem hafa lagt hönd á plóg við að gera herbergið eins hlýlegt og notalegt og mögulegt er,“ segir Heiðrún.

Herbergið hefur verið í notkun í rúmt ár og að sögn Heiðrúnar er það nú orðið fullbúið og því tími til kominn að afhenda það formlega. „Herberginu gáfu við nafnið Von og ég útbjó meira að segja skilti í FabLab smiðjunni sem verður hengt hér upp. Fjórir hjúkrunarfræðingar sem starfa á sjúkrahúsinu hafa lært á þessar krabbameinslyfjagjafir sem þýðir flestir, sem áður þurftu að leita suður, geta nú fengið lyfjagjöf heima í héraði. Það sparar bæði tíma og peninga en síðast en ekki síst sparar það orku fólksins því það tekur á, bæði andlega og líkamlega, að ferðast reglulega suður til Reykjavíkur,“ segir Heiðrún. Sigurvon kemur til með að sjá um herbergið í framtíðinni. „Við munum sjá til þess að ekkert vanti.“


F.v: Guðbjörg Ólafsdóttir, Heiðrún Björnsdóttir, Sigurður Ólafsson, Hörður Högnason og Rannveig Björnsdóttir, deildarstjóri

Höf.:HH