Kristín Björg Albertsdóttir, forstjóri HVEST, lætur af störfum 1. júlí n.k. Hún tók við af Þresti Óskarssyni 1. nóvember 2016 og hafði áður verið forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Óhætt er að segja að starf hennar hér hafi verið viðburðaríkt, mjög annasamt og erfitt. Það vildi okkur á HVEST þó til happs, að Kristín er vel menntaður reynslubolti, afskaplega vinnusöm og nákvæm í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. Tók hún af festu á mörgum erfiðum málum, sem þurftu úrlausnar við. Stofnunin var óheppin með ráðningar á fjármálastjórum, sem olli því að Kristín þurfti lengi vel sinna því starfi líka, á sama tíma og mikil endurskoðun átti sér stað á rekstri stofnunarinnar. Þá þurfti nýráðinn mannauðsstjóri einnig að hætta af fjölskylduástæðum, en Framkvæmdastjórn hafði bundið miklar vonir við það nýja starf. Kristín kann þá list, að slaka á og róa huga og hönd með þeim aðferðum sem jóga og hugleiðsla kenna. Það hlýtur að koma í góðar þarfir í dagsins önn.   

 

Það verður sjónarsviptir af Kristínu, enda erfitt að fylla það skarð, sem hún skilur eftir sig. Er henni þakkað af alhug fyrir samstarfið á HVEST og óskað allra heilla í framtíðinni. Kristín hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Sólheima í Grímsnesi og hlakkar til að takast á við ný verkefni á þeim góða stað.


Kristín Björg Albertsdóttir

Höf.:HH