Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra fundaði í morgun með stjórnendum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og sveitarstjórnendum á svæðinu. Að því loknu hélt hann fund með starfsfólki stofnunarinnar í matsal hennar við Torfnes á Ísafirði.

Útskýrði hann þar ástandið, tíundaði skuldastöðu ríkisins og þá klemmu sem við erum í vegna hennar. Kom m.a. fram í máli hans að niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu er dropi í skuldahafið þó svo að eingöngu sé talað um vaxtagjöld af skuldum ríkisins erlendis. Hann lagði því áherslu á að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu væri staðreynd og að honum yrði haldið áfram, vonandi þó tímabundið.

Hann fjallaði þá aðeins um sameiningu stofnana á Vestfjörðum þar sem Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði átti að sameinast Heilbrigðisstofnun Vestfjarða þann 1. mars nk. Verður líklega einhver bið á þeirri sameiningu þar sem enn á eftir að hnýta nokkra hnúta og lækka þær óánægjuöldur sem risið hafa vegna þessara sameiningarferla. Lagði hann áherslu á að enginn yrði neyddur til neins í þessum umbrotum en ítrekaði að nú væri full þörf á samstöðu um aðgerðir, hjá öðru yrði ekki komist.

Að lokum opnaði ráðherra á fyrirspurnir og afhenti þá Hildur Elísabet Pétursdóttir bréf frá Vestfjarðardeild félags íslenskra hjúkrunarfræðinga en þar kemur fram að þeim finnist niðurskurðarhnífnum misbeitt og vilja skýringar á tilhögun fyrirhugaðs niðurskurðar.
Snæddi ráðherra og föruneyti síðan kótelettur í raspi með megninu af starfsfólki stofnunarinnar.


Höf.:SÞG