Hildur Elísabet Pétursdóttir, hjúkrunarfræðingur, hefur verið ráðin deildarstjóri Hjúkrunarheimilisins Eyrar á Ísafiði og Hjúkrunarheimilis Bolungarvíkur.

Hildur hefur unnið á legudeildum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða (HVEST) síðan 1997 og sem aðstoðardeildarstjóri á Bráðadeild og Öldrunardeild HVEST frá 2009. Þess utan leysti hún af í 1 ár sem hjúkrunarforstjóri við Heilbrigðisstofnun Bolungarvíkur árið 2008-2009 og vann í 1 ár á Wyncourt hjúkrunarheimilinu í Manchester í Englandi 2011-2012.

 

Hildur lauk BS prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 1997 og diplomanámi í hjúkrun hjarta- og lungnasjúklinga frá HÍ 2006. Hún hlaut svo meistaragráðu í hjúkrunarstjórnun frá HÍ árið 2011.

 

Hildur er formaður í Þjónustuhópi aldraðra fyrir hönd Ísafjarðarbæjar og situr í Félagsmálanefnd bæjarins. Hún er í stjórn Vestfjarðadeildar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og stjórn Héraðssambands Vestfirðinga. Hún situr í stjórn Hjúkrunarráðs HVEST og í Starfsmannaráði stofnunarinnar.

 

Hildur er Bolvíkingur og Ísfirðingur að ætt og uppruna og alin upp í Bolungarvík.

 

Hjúkrunarheimili eru í flestu frábrugðin sjúkradeildum sjúkrahúsa að upplagi, þó skjólstæðingarnir fái svipaða þjónustu á báðum stöðum. Lögð er áhersla á heimilishlutverk Eyrar og HB, þar sem starfsfólkið er væntanlegum íbúum til aðstoðar og hjálpar. Aðkoma aðstandenda og vina íbúanna tekur mið af því, en breytir engu í venjulegri frændrækni og aðstoð við að geta notið lífsins innan og utan heimilisins.

 

Hildur er boðin velkomin til nýrra starfa. Hún mun stýra uppbyggingu heimilanna og aðlögun starfsmanna að nýrri hugmyndafræði við hjúkrun og umönnun.


Höf.:HH