Rannsóknadeild Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða þjónar íbúum Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkur og Patreksfjarðar. Á rannsóknadeild eru framkvæmdar allar helstu blóðmeina– og meinefnafræðimælingar. Auk þess eru gerðar hormónamælingar, þvagrannsóknir og sýklaræktanir, blóðbankarannsóknir, blóðgasmælingar og rannsóknir á blóði í saur. Aðrar rannsóknir eru sendar á rannsóknastofu Landspítala Háskólasjúkrahúss.

Blóðsýnataka

Undirbúningur

Læknir leggur inn beiðni um blóðsýnatöku en panta þarf tíma í afgreiðslu stofnunarinnar.
ATH. Ef mæla á blóðsykur og/eða blóðfitur þarf sjúklingur að koma fastandi að morgni til blóðsýnatökunnar.

Framkvæmd

Í blóðsýnatöku er notuð sérstök blóðtökunál. Blóðsýnin eru tekin í mismunandi glös, allt eftir því hvað á að mæla. Allar rannsóknir eru gerðar daglega. Blóðsýnataka tekur að jafnaði um 5-10 mínútur.

Niðurstöður

Ef senda þarf blóðsýni til mælinga á rannsóknastofu Landspítala, tekur það einn sólarhring að fá niðurstöður. Þegar niðurstöður okkar mælinga liggja fyrir færast þær sjálfkrafa yfir í tölvukerfið. Tækin okkar og tölvukerfi eru samtengd rannsóknarstofu Landspítala. Eftir að niðurstöður hafa verið staðfestar getur sá læknir sem óskaði eftir rannsókninni flett þeim upp í tölvukerfinu. Hann hefur þá samband við þig (eða þú við hann) til að ræða niðurstöðurnar. Mælingar á þeim fjöldamörgu efnum sem finnast í blóði gefa mikilvægar upplýsingar um líkamlegt ástand viðkomandi.

Sé grunur um þvagfærasýkingu skal einnig hafa samband við hjúkrunarvakt sem þá útbýr beiðni. Bestu þvagsýnin eru miðbunu-morgunþvag, sem koma þarf með sem fyrst á rannsóknarstofuna. ATH. Ef geyma þarf sýnið í smá tíma er nauðsynlegt að setja það í ísskáp.

Leiðbeiningar fyrir þvagsýnatöku

Rétt miðbunuþvagtaka
Tilgangur með rannsóknum á þvagsýnum er að kanna ástand nýrna og finna hugsanlega sýkingu í þvagfærum. Til að rannsóknin verði sem áreiðanlegust verður þvagsýnið að vera rétt tekið og án utanaðkomandi baktería. Allt of algengt er að þvagsýni séu menguð af húð- og þarmabakteríum sem trufla rétta útkomu. Þetta hefur í för með sér óþarfa útgjöld og meiri fyrirhöfn og jafnvel töf á markvissri lyfjameðferð. Vegna mikils bakteríugróðurs á svæðinu í kringum endaþarm og þvag- og kynfæri er nauðsynlegt að þvo vel þetta svæði fyrir sýnatökuna. Rétt framkvæmdur neðanþvottur er nægjanlegur.

Aðferð:

  1. Nákvæmur neðanþvottur úr mildu sápuvatni
    • Konur athugi að þvo vel milli skapabarma og strjúka alltaf framan frá og aftur
    • Karlar þvoi vel undir forhúð
  2. Kastið þvagi og látið fyrstu bunu fara í salernið, miðbunu í þvagílátið og bunulok í salernið.

Tækjakostur og þjónusta

Deildin er vel tækjum búin. Meðal helstu tækja mætti nefna Cobas C311 og Cobas e411 til meinefnafræðirannsókna og hormóna, blóðmeinafræðitækið Sysmex XN-1000, blóðbankatæki, blóðgasmælir, þvagstrimlalesari, Olympus smásjá og Hellich-U320 skilvinda.

Rannsóknadeildin er með innra gæðaeftirlit með rannsóknunum. Gott samstarf er við rannsóknadeildir Landspítala Háskólasjúkrahúss og Blóðbankann.

Opnunartími rannsóknadeildar
Opið er fyrir blóðsýnatökur alla virka daga frá kl. 08:10-09:20.
Lífeindafræðingar eru við frá kl. 08:00-15:00 alla virka daga, en eru á bakvakt utan dagvinnutíma.

Tímapantanir
Hægt er að panta tíma í blóðsýnatöku í síma 450 4500.

Þjónusta á Patreksfirði

Á Patreksfirði eru tekin blóðsýni af læknum og hjúkrunarfræðingum. Sýni eru send á rannsóknadeild sjúkrahússins á Ísafirði einu sinni í viku til mælinga, en beri nauðsyn til eru sýni send þess á milli suður til Reykjavíkur á rannsóknadeild Landspítala.

Uppfært 12. apríl 2023 (GÓ)

Var síðan gagnleg?